2.4.2008 | 10:06
Þegir stjórnarandstaðan?
Þessi grunnhyggnu ummæli sýna ekki mikið vit á því hvernig stjórnvöld virka, nema maðurinn hafi hreinlega svona ótrúlega litla trú á stjórnmálamönnum landsins. Honum til upplýsingar skal ég samt gefa honum svarið: Stjórnarandstaðan þegir vegna þess að aðgerðir ykkar eru ekki bara ólöglegar, illa ígrundaðar, vinna gegn almenningi og brjóta meðalhófsregluna, þær beinast í ofanálag að röngum aðilum. Verð á olíutunnu hefur aldrei í sögunni verið svona hátt. Álögur ríkisins hafa ekki hækkað síðan 2003. Það eitt að vera í stjórnarandstöðu gerir það ekki að verkum að fólkið þar taki alltaf upp hanskann fyrir hvaða málstað sem er, bara ef hann beinist gegn sitjandi stjórn. Það verður líka að vera heil brú í því hverju er verið að mótmæla. Annars missir maður trúverðugleika og lítur út fyrir að vera sami hálfviti og mótmælir. Í alvörunni talað: "Með því gæti hún náð sér í smá rjóma fyrir næstu kosningar..." ég verð að viðurkenna mér finnast þetta alveg kostuleg ummæli.
Ég skil það að sjálfsögðu vel að atvinnubílstjórar á stórum bílum séu ekki sáttir við þær hækkanir sem orðið hafa og vissulega mætti alveg færa rök fyrir því að fyrst ríkið niðurgreiðir tolla og álögur fyrir landbúnað væri hægt að komast að einhverju samkomulagi við atvinnubílstjóra svo þeir kikni ekki undan verðhækkunum. Þetta er hins vegar ekki rétta leiðin til að ná sínu fram.
Enn fáránlegra finnst mér þegar í hóp atvinnubílstjóranna bætast vitleysingar úr Ferðaklúbbnum 4x4, sem finnst bensínið orðið alltof hátt til þess að þeir geti farið út í móa og leikið sér. Hvar er forgangsröðin strákar?? Ástandið á fjármálamörkuðum heimsins er slæmt, það eru verðhækkanir alls staðar, samdráttur á litla Íslandi og jafnvel talað um kreppu í annarri hverri setningu. Og þessir vitleysingar eru að væla yfir því að þurfa að borga enn meiri pening til að reka stóru, dýru bensínhákana sína, sem þeir nota: a) til að stunda áhugamál sitt, b) til að keyra hér innanbæjar á upphækkuðu breiðu druslunum sínum, rífandi hliðarspegla af bílum í miðbænum, takandi þrjú stæði og skapandi stórhættu fyrir fólk á venjulegum fólksbílum ef til árekstrar kemur (upphækkaðir bílar eru akkúrat í haushæð á manneskju í venjulegum bíl. Ég hef séð rannsókn á slysahættunni á þessum bílum. Ég skil ekki af hverju ekki er búið að banna þá í borgarumferð), eða c) hvort tveggja. Ég hef lausnina fyrir ykkur: kaupið ykkur þægilegan, hóflega sparsaman fólksbíl sem á heima í borgarumferð til að komast leiðar ykkar í bænum á meðan bensínið er svona hátt. Leggið áhugamálinu ykkar. Þið þurfið hvort eð er að fara að vinna meira til að eiga fyrir klósettpappírnum.
Að lækka bensínið ætti ekki að vera forgangsatriði fyrir almenna borgara. Hættið að væla og notiði strætó, hjól eða tvo jafnfljóta.
Mestu tafir hingað til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vá akkúrat það sem ég var að hugsa með þessa álfa í 4x4 klúbbnum. Ég þoli ekki þessar jeppadruslur í yfirstærð..
Eru hálftíma að taka af stað á ljósum og kæfa mann með útblæstri..
Davíð (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 13:15
Eins og talað frá mínu hjarta. Hjákátlegt að sjá 4X4 félagana á blöðrudekkjunum mótmæla háu eldsneytis verði fyrir leiktækin sín.
Helgi (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.