Um allan heim þurfa hundruð þúsunda karlmenn líka að þola hörmungar af völdum vopnaðra átaka

Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef einhver af þeim sem mér þykir vænst um myndi hverfa einn daginn. Ég hef bara engar forsendur til að gera mér það í hugarlund hversu miklar þjáningar það hlýtur að valda fólki að standa í þessum sporum. Eins og bent er á fréttinni eykur það svo enn á ógæfuna að staða kvenna sem í þessu lenda er oft bág þar sem jafnrétti er oft ekki komið langt á veg. Þetta er vissulega raunverulegt vandamál.
Því er ekki ætlun mín að gera lítið úr þeim vanda sem verið er að vekja athygli á þarna með því að velta fyrir mér af hverju konur og börn eru alltaf í brennidepli þegar talað er um fórnarlömb stríðsins. Að sjálfsögðu eru þau það. Fórnarlömb, þ.e.a.s. En eru karlmenn ekki alveg jafn mikil fórnarlömb? Hvað með mennina á bakvið þessa frétt? Þessa sem hurfu?
Í mörgum þeim löndum sem heyja stríð er herskylda. Í öðrum, svo sem stærsta stríðsrekstrarríkinu, sjálfum Bandaríkjunum, er sjónum beint að fátækum, ómenntuðum og illa upplýstum ungum drengjum þegar verið er að safna nýjum liðsmönnum. Drengjum sem hafa fá eða engin tækifæri í lífinu. Hversu há ætli sú prósenta sé, í hvaða herliði sem er, sem samanstendur af ungum drengjum um eða undir tvítugt sem vita ekkert hvað þeir eru að fara út í, er hent út á vígvöll með hríðskotabyssu í hendinni (eftir þjálfun sem beinist að því að “herða” þá upp og brjóta niður sjálfstæða hugsun) og þurfa að drepa eða verða drepnir, verða vitni að hverju voðaverkinu á fætur öðrum, fremja þau jafnvel sjálfir í krafti hópvitundarinnar, sem verður enn sterkari í þessum aðstæðum heldur en í venjulegum aðstæðum daglegs lífs (og er hún þó nógu sterk þar), ganga á adrenalíninu nótt eftir dag eftir nótt eftir dag og eru heppnir ef þeir koma heim á lífi? Hversu margir þeirra sem koma heim eftir að hafa barist á vígvöllunum ætli séu í lagi? Mig rennur í grun að hlutfall þeirra sem koma heim alvarlega fatlaðir á líkama og sál sé margfalt hærri en þeirra sem ná að halda sönsum, því það umhverfi sem þeir eru í er svo stórlega mannskemmandi á allan hátt.
Ég veit það vel að það er erfiðara að hugsa um hermennina sjálfa sem fórnarlömb, þar sem þeir eru jú þeir sem fremja voðaverkin, en staðreyndin er sú að uppbygging sálarlífs okkar mannanna býður upp á að hægt sé að láta manneskjur fremja voðaverk í skjóli liðsheildar. Það að hlýða skipun um eitthvað að ofan er öflugri hvati en flestir gera sér grein fyrir eða finnst þægilegt að viðurkenna. Það þarf ekki annað en að lesa um Milgram tilraunirnar til að sjá það (sjá umfjöllun hér). Það að tilheyra hóp og hegða sér í samræmi við kröfur hópsins er líka öflugri eðlishvöt en flestir gera sér grein fyrir (sjá Asch paradigm og tilraun Sherifs). Ennfremur er auðveldara fyrir okkur að afneita mennsku fólk sem tilheyrir ekki okkar hóp en við viljum kannast við, þrátt fyrir siðmenntað yfirbragð okkar á yfirborðinu. Ekki þarf annað en að lesa sér til um  Stanford fangelsistilraunina til að gera sér grein fyrir því (sjá umfjöllun hér). Við erum því ekki jafn sjálfstæð í hugsun og við viljum trúa.
Í framhaldi af því get ég ekki annað en velt því fyrir mér af hverju oft er talað um konur og börn sem mestu fórnarlömb stríðsreksturs. Ég tel karlmenn alls ekki fara betur út úr honum heldur en konurnar þeirra eða börnin. Það tapa allir. Nema ríkisstjórnirnar sem fyrirskipa slátranirnar og nokkrir siðspilltir auðmenn.
mbl.is Konur leita ástvina sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Lilja

Vegna þess að þau gleymast oft: konur og börn.

Það er talað um stríð og hermenn sem eru í flestum tilvikum karlmenn.

Það er ekki verið að gera lítið úr þjáningum hermanna (sem er augljós) heldur benda á að það er fleira fólk sem þarf að þjást vegna herskyldu karlmanna. 

Anna Lilja, 8.3.2008 kl. 12:36

2 Smámynd: Evil monkey

Já, þarna nefnilega greinir okkur á, mér finnst hermenn oftast svolítið gleymast í umræðunni, eða sú staðreynd að þeir eru oft fórnarlömb aðstæðna sjálfir.

Evil monkey, 9.3.2008 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband