1.4.2008 | 10:23
Léttur latté!
Ég ákvað að gera vel við mig, sökum óvenjumikils vorfiðrings, enda afskaplega bjart og fallegt veður, sem merkilegt nokk er ekki gluggaveður heldur er líft útivið, jafnvel svolítið þægilegt! Ég hafði nokkrar mínútur aflögu og þar sem morgunhlaupið hafði sett stefnuna fyrir yndislegan dag stalst ég inn á Kaffitár á Þjóðminjasafninu á leið minni í tíma.
Inni á Kaffitári var nær mannlaust - aðeins ein manneskja sat þar úti í horni og grúfði sig yfir morgunblöðin. Sólskinið teygði sig inn um gluggana og lýsti upp hluta staðarins, rykkornin dönsuðu í birtunni og kyrrðinni og það var nokkuð ljóst að þarna inni réðu notalegheitin ríkjum. Ég gekk upp að afgreiðslustúlkunni og setti fram pöntun mína, léttan latté. Beið svo álengdar við afgreiðsluborðið á meðan hún dundaði við kaffið mitt. Miðað við tímann sem það tók var ég alveg með það á hreinu að í þennan litla kaffibolla fór ekki bara kaffi og mjólk, heldur mikil alúð. Og allir vita að matur sem búinn er til af alúð bragðast betur en annar matur. Kryddlegin hjörtu kenndi okkur það. Sem hún er að verða búin að velta flóuðu mjólkinni í könnunni í lengri lengri tíma sá ég að hún gerði sig líklega til að fara að hella henni ofan i kaffiskammtinn. Miðað við mannleysið inni á staðnum bjóst ég einhvern veginn við því að eðilegt næsta skref væri að standa í sömu sporum og hún stóð í á þessari mínútu og setja drykkinn á borðið fyrir framan mig. Hún gerði það þó ekki. Hún tók pappaglasið, sneri sér svo við þannig að hún sneri bakinu í mig, skundaði að borðinu hinum meginn við afgreiðsluborðið (þar sem venjan er að skilja tilbúna kaffidrykki eftir fyrir þyrsta viðskiptavini, þegar meira er að gera en ein manneskja), hellti mjólkinni í og æpti svo yfir allan staðinn: "Léttur latté!"
Mér fannst þetta svolítið skondið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.