15.3.2008 | 03:33
Atferlismótun í grunnskólana
Úr umræddum dómi:
Við mat á því hvort tjónvaldur geti borið skaðabótaábyrgð á grundvelli sakarreglunnar þurfa að liggja fyrir að sérstakar huglægar afsökunarástæður eigi ekki við um hann svo sem æska eða skortur á andlegri heilbrigði. Í málinu liggur fyrir að B hefur verið greind með Aspergerheilkenni. Í fyrirliggjandi bæklingi um þá fötlun segir meðal annars að Aspergerheilkenni sé ekki sjúkdómur heldur fötlun skyld einhverfu. Kemur þar og fram að ólíkt flestum einhverfum hafi einstaklingar með Aspergerheilkenni ekki alvarlega skertan mál- og vitsmunaþroska. Komi lykileinkenni Aspergerheilkennis fram á tveim sviðum, annars vegar í félagstengslum og samspili við aðra og hins vegar í sérkennilegri og áráttukenndri hegðun og áhugamálum.
Samkvæmt gögnum málsins hefur B góða námsgetu og gerir hún greinarmun á réttu og röngu. Þetta staðfestu móðir hennar, stefnandi sem hafði einnig verið kennari hennar í 5. bekk og sérkennari hennar C. Kom fram hjá móður hennar að fötlun hennar hafi helst háð henni félagslega og hún lendi oft í útistöðum. Þá kvað hún dóttur sína hafa sérkennileg áhugamál og að hún þoli illa breytingar. Hún hafi verið þunglynd og líði oft illa. Þá kom fram hjá vitninu C að B væri mjög hvatvís og hún verði til dæmis pirruð ef röskun verður á stundaskrá hennar.
B var nýorðin 11 ára þegar atburður sá sem hér er fjallað um átti sér stað. Af því sem að framan er rakið þekkti hún muninn á réttu og röngu og er ekkert í málinu sem bendir til þess að fötlun hennar hafi skert dómgreind hennar eða að vitsmunaþroski hennar hafi verið minni en almennt hjá börnum á sama aldri. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að B hafi ætlað sér að skella hurðinni á stefnanda umrætt sinn heldur er líklegra að hvatvísi hennar hafi þar ráðið för eða reiði vegna þess að henni hafði sinnast við skólabræður sína.
Ég get bara ekki orða bundist. Í fyrsta lagi skil ég ekki hvernig foreldrarnir en ekki sveitarfélagið eru bótaskyld, þar sem skólaskylda er á landinu, eins og fram kemur í færslu Nönnu Katrínar, í öðru lagi var notast við bækling til að meta það hvort stúlkan ætti sér málsbætur í fötlun sinni. Bækling. Ef þetta er ekki skólabókardæmi um slæleg vinnubrögð þá veit ég ekki hvað er. Hreint út sagt ömurlegt og lýsir þvílíku metnaðarleysi, þekkingarleysi og fordómum hjá fulltrúum hérðasdóms að ég á ekki til orð. Eins alvarleg og einstaklingsbundin röskun og Asperger er, þá er ekki hreint út sagt ekki hægt að komast til botns í með því að lesa bækling. Að ekki skuli hafa farið fram faglegt mat á barninu er til skammar.
Asperger er fötlun á einhverfurófinu. Til að úskýra þetta nánar, þá er almennt viðurkennt í fræðum um þá röskun, að einhverfa er til í mörgum mismunandi myndum og misalvarlegum. Einum meginn á rófinu eru börn sem ekki er hægt að ná neinu sambandi við og jafnvel skaða sjálf sig (að berja hausnum endurtekið utan í vegg t.d.), eru algerlega í sínum heimi og þurfa gífurlega mikla ummönnun. Hinum meginn á rófinu er svokallað Aspergers heilkenni, en þeir sem glíma við það hafa í raun vægari einkenni einhverfu. Heilkennið hefur engin áhrif á vitsmunaþroska, þ.e. það sem lært er á bókina, en á oft afskaplega erfitt með mannleg samskipti, gerir sér enga grein fyrir hvað er viðeigandi og hvað ekki, skilur ekki blæbrigði tungumálsins (til dæmis samlíkingar, þegar eitthvað er "gefið í skyn" eða kaldhæðni) og líkamstjáning er oft lokuð bók fyrir þessum einstaklingum. Oft þolir þetta fólk illa eða ekki breytingar og að vera með svona röskun er í flestum tilfellum ávísun á einelti í grunnskólum. Oft langvarandi og alvarlegt, þar sem barnið í raun "bíður upp á það" með hegðun sinni, séð út frá skólafélögum á sama aldri sem ekki hafa þroska til þess að sjá hvað liggur að baki þeirri undarlegu hegðun sem barnið sýnir endurtekið og virðist ekki læra af samskiptum við annað fólk. Sem fylgir þessari röskun. Börn hafa bara ekki þroska til þess að sjá það. Því þarf oft að vernda börn með Asperger fyrir skólafélgöum sínum, bæði með almennri fræðslu í bekkinn og með því að taka strax og af alvarleika á þeim tilfellum sem upp koma.
Mér þykir ekki ólíklegt að sú hafi verið raunin hér þegar talað er um í dómnum að telpunni hafi "sinnast við skólafélaga sína" og að barnið hafi verið í miklu uppnámi.
Nú ætla ég að setja upp litlar aðstæður sem eru alltof algengar í skólastofum landsins í dag. Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta eigi við varðandi dóminn hér að ofan, og ætla mér ekki að ýja að því á neinn hátt. En þetta er raunverulegt vandamál samt sem áður.
Þegar fólk útskrifast úr KHÍ kemur það inn í skólaumhverfið með háleitar vonir um að skipta máli í lífum barna. Mennta það og fylgjast með þeim vaxa úr ólæsum greyjum í ... jah... allavega eitthvað upp eftir skólastiginu.
Flestir reka sig á það nokkuð fljótt að af þessum 20-25 börnum í bekknum þeirra þá eru 3-4 þeirra sem eru til "vandræða". Hefur ekki verið kennt að sitja kyrr, taka leiðbeiningum og aga illa, sum þessara barna með námsörðugleika líka og ekki líður á löngu þar til þetta verður að hegðunarvandamáli sem truflar kennslu meira en góðu hófi gegnir.
Kennarinn kann ekki að taka á þessu og á endanum hrökklast hann úr starfi, þar sem hann sér að hann er ekki að sinna því starfi sem hann menntaði sig í. Þetta gerist. Oft. Vegna þess að þekking á atferlismótun er ekki útbreidd í skólastarfi og er ekki kennd við KHÍ (sem stendur sem betur fer til bóta).
Segjum að kennarinn hafi barn í bekknum sem er ekki bara erfitt sökum fötlunar, það verður líka fyrir aðkasti frá skólafélögum, segjum... drengjum sem erfitt er að tjónka við og eru nú komnir í 6. bekk. Segjum að það sé brjálað að gera hjá kennaranum, verið að undirbúa kynningu, allt á útopnu og enn og aftur sinnast barninu og bekkjarfélögum. Það liggur ekki fyrir hvað málið var, en barnið sem stríðir við röskun dregur sig í hlé, felur sig inn í geymslu. Friður kemst á í augnablik, þar til allt er tilbúið. Í nokkur augnablik þarf kennarinn ekki að heyja stríð við nemendur sína á meðan hann reynir að framfylgja kennslunni.
Þetta er krefjandi verkefni. Krefjandi... ekki bara krefjandi. Slítandi. Svo slítandi að það er engu lagi líkt.
Þessar aðstæður (nú er ég að vísa til dæmisögunnar) hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir ef kennarinn hefði haft grundvallarþekkingu á atferlismótun.
Eins og ég segi, þá veit ég ekki hverjar aðstæður voru í kringum þennan dóm. En mér finnst það alvarlegt mál að kasta grunnskólakennurum óundirbúnum inn í þær aðstæður sem við búum við í dag, þ.e. að hægt er að búast við því að í hverjum einasta bekk séu að lágmarki 1-2 nemendur, jafnvel fleiri, sem hægt er að búast við að trufli kennsluna. Því þegar vandamálið er nýtilkomið hefur kennarinn (og aðrir umönnunaraðilar) allt að segja um hvert framhaldið verður; hvort vandamálið vindi upp á sig eða hvort það verður stoppað i fæðingu.
Það gæti jafnvel komið í veg fyrir slys.
Dæmd til að greiða kennara 10 milljónir í bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2008 | 08:59
Í staðinn fyrir heimsóknir til sálfræðings?
Kannski í einhverjum tilvikum... þ.e. þeim tilvikum þar sem vandamálið er aðallega einmanaleiki. En starf klínískra sálfræðinga snýst um að meðhöndla klínískar raskanir - þ.e. krónísk vandamál sem trufla daglega starfsemi fólks. Þumalputtareglan gæti verið á þessa leið: ef það er nóg að tala við vini þína um vandamálið, þá hefurðu ekkert til sálfræðings að gera.
Því myndi ég frekar segja að bloggið hafi komið í staðinn fyrir að segja söguna vini sínum eða skrifa hana í dagbók. Nú eða hreinlega að þetta sé ekki að koma í staðinn fyrir eitt eða neitt; bloggið er nýr samskiptamáti sem gefur fólki enn eina leiðina til að tjá sig til viðbótar við hinar. Sem er bara flott.
Blogg gegn þunglyndi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2008 | 16:51
Um allan heim þurfa hundruð þúsunda karlmenn líka að þola hörmungar af völdum vopnaðra átaka
Því er ekki ætlun mín að gera lítið úr þeim vanda sem verið er að vekja athygli á þarna með því að velta fyrir mér af hverju konur og börn eru alltaf í brennidepli þegar talað er um fórnarlömb stríðsins. Að sjálfsögðu eru þau það. Fórnarlömb, þ.e.a.s. En eru karlmenn ekki alveg jafn mikil fórnarlömb? Hvað með mennina á bakvið þessa frétt? Þessa sem hurfu?
Í mörgum þeim löndum sem heyja stríð er herskylda. Í öðrum, svo sem stærsta stríðsrekstrarríkinu, sjálfum Bandaríkjunum, er sjónum beint að fátækum, ómenntuðum og illa upplýstum ungum drengjum þegar verið er að safna nýjum liðsmönnum. Drengjum sem hafa fá eða engin tækifæri í lífinu. Hversu há ætli sú prósenta sé, í hvaða herliði sem er, sem samanstendur af ungum drengjum um eða undir tvítugt sem vita ekkert hvað þeir eru að fara út í, er hent út á vígvöll með hríðskotabyssu í hendinni (eftir þjálfun sem beinist að því að herða þá upp og brjóta niður sjálfstæða hugsun) og þurfa að drepa eða verða drepnir, verða vitni að hverju voðaverkinu á fætur öðrum, fremja þau jafnvel sjálfir í krafti hópvitundarinnar, sem verður enn sterkari í þessum aðstæðum heldur en í venjulegum aðstæðum daglegs lífs (og er hún þó nógu sterk þar), ganga á adrenalíninu nótt eftir dag eftir nótt eftir dag og eru heppnir ef þeir koma heim á lífi? Hversu margir þeirra sem koma heim eftir að hafa barist á vígvöllunum ætli séu í lagi? Mig rennur í grun að hlutfall þeirra sem koma heim alvarlega fatlaðir á líkama og sál sé margfalt hærri en þeirra sem ná að halda sönsum, því það umhverfi sem þeir eru í er svo stórlega mannskemmandi á allan hátt.
Ég veit það vel að það er erfiðara að hugsa um hermennina sjálfa sem fórnarlömb, þar sem þeir eru jú þeir sem fremja voðaverkin, en staðreyndin er sú að uppbygging sálarlífs okkar mannanna býður upp á að hægt sé að láta manneskjur fremja voðaverk í skjóli liðsheildar. Það að hlýða skipun um eitthvað að ofan er öflugri hvati en flestir gera sér grein fyrir eða finnst þægilegt að viðurkenna. Það þarf ekki annað en að lesa um Milgram tilraunirnar til að sjá það (sjá umfjöllun hér). Það að tilheyra hóp og hegða sér í samræmi við kröfur hópsins er líka öflugri eðlishvöt en flestir gera sér grein fyrir (sjá Asch paradigm og tilraun Sherifs). Ennfremur er auðveldara fyrir okkur að afneita mennsku fólk sem tilheyrir ekki okkar hóp en við viljum kannast við, þrátt fyrir siðmenntað yfirbragð okkar á yfirborðinu. Ekki þarf annað en að lesa sér til um Stanford fangelsistilraunina til að gera sér grein fyrir því (sjá umfjöllun hér). Við erum því ekki jafn sjálfstæð í hugsun og við viljum trúa.
Í framhaldi af því get ég ekki annað en velt því fyrir mér af hverju oft er talað um konur og börn sem mestu fórnarlömb stríðsreksturs. Ég tel karlmenn alls ekki fara betur út úr honum heldur en konurnar þeirra eða börnin. Það tapa allir. Nema ríkisstjórnirnar sem fyrirskipa slátranirnar og nokkrir siðspilltir auðmenn.
Konur leita ástvina sinna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2008 | 15:08
Klósett og kurteisisvenjur
Um daginn var apinn staddur á Háskólatorgi í fyrsta sinn, nýjustu byggingu Háskólans, og verður að segjast að hún lítur nú bara nokkuð vel út. Sem vera vildi þurfti apinn að gera þarfir sínar og labbaði inn um bláa hurð sem á var hengt A4 blað með útprentuðum orðunum WC. Ég bjóst við litlu einstaklingsklósetti en við mér blasti risastórt hvítt gímald með svona í kringum 20 básum hlið við hlið við hlið
allir með hurðina opna upp á gátt, afskaplega uniform svona. Það lá við að ég fengi víðáttubrjálæði við að fara þangað inn. Ég valdi mér bás frekar nálægt miðju og settist niður. Í þann mund sem vindurinn var farinn að kæla rasskinnarnar og apinn var farinn að búa sig undir að gera þarfir sínar opnast dyrnar á klósettinu. Þar sem apinn er frekar klósettfeiminn spenntist hann allur upp og beið átekta á meðan einstaklingurinn sem nýlega var kominn inn gekk einbeittum skrefum að bás. Nú vil ég minna á lýsingu mína á þessu risagímaldi sem klósettið var, hvernig hvítir básarnir stóðu galopnir og biðu eftir úrgangi í kerfið. En þessi einstaklingur valdi básinn við hliðina á mér. 20 básar
allir opnir. Einstaklingurinn gengur að eina básnum sem er lokaðr og með rauðum lit fyrir ofan hurðarhúninn, fer inn á básinn við hliðina, girðir niðrum sig og sinnir sínum erindum. Á meðan sat lítill og afskaplega illur api hinum meginn við þunna MDF plötu, opinni í báða enda, með rassgatið beint í gegnumtrekkinn í klósettskálinni, og beið án þess að gefa frá sér píp. Einstaklingurinn lauk sínum erindum fljótt og vel og stóð svo endalaust lengi inni á klósettinu áður en hann gekk út. ÁN þess að þvo sér um hendurnar. Ég hef síðan velt því fyrir mér hvað manneskjunni gekk til, að hafa þörf fyrir að troða sér beint ofan í eina læsta básinn með sinn bissness, og hvort að svona athæfi falli ekki undir sammannlegar reglur um persónulegt rými og kurteisisvenjur í samfélagi okkar.
Í tilefni af þessu þýddi ég lítið greinarkorn um kurteisisvenjur á klósettinu sem ég fann á netinu.
Listin að kúka í vinnunni
Við höfum öll verið í þessum sporum þó við viljum ekki viðurkenna það. Við höfum setið á dallinum í vinnunni og allt í einu fundið eitthvað krauma þarna niðri. Eins mikið og við reynum að sannfæra sjálf okkur um að raunin sé önnur, er staðreyndin sú að VINNUKÚKURINN er óhjákvæmilegur. Fyrir ykkur sem þolið ekki að kúka í vinnunni er gott að fylgja þessum lífsnauðsynlegu reglum um hvernig skal kúka í vinnunni.
Aðflug: Það að kynna sér aðstæður áður en hafist er handa. Gakktu inn og athugaðu hvort aðrir kúkarar séu inni á baðherbergi. Ef einhver er inni á baðherberginu, farðu út og komdu aftur seinna. Passaðu þig á því að verða ekki frequent flyer; fólk gæti farið að gruna þig um eitthvað skrýtið ef þú ert alltaf á klósettinu.
Uppskerudreifing: Þegar þú prumpar gengurðu rösklega um skrifstofuna svo að lyktin sé ekki inni á þínu svæði og allir finni smá lykt en enginn geti staðsett hana. Passaðu þig á því að stoppa ekki fyrr en þú hefur hleypt öllu prumpinu út og gakktu auka 10 metra til að vera viss um að lyktin sé farin úr buxunum þínum.
Út úr skápnum kúkarinn: Vinnufélagi sem kúkar í vinnunni og er helvíti skoltur af því. Þú sérð út úr skápnum kúkarann fara inn á klósett með dagblað eða tímarit undir hendinni. Svipast alltaf um eftir honum og staðsettu hann áður en þú ferð inn á klósett.
Griðastaðir: Lítið notuð klósett einhvers staðar í byggingunni þar sem hættan á gestum er lítil. Prófaðu hæðir þar sem flestir eru af gagnstæðu kyni við þig. Þetta minnkar líkur á að kúkari af þínu kyni labbi inn á þig.
Teddi frændi: Klósettnotandi sem hangir endalaust inni á klósetti. Gæti hangið fyrir framan spegilinn eða sitjandi á dollunni. Teddi frændi gerir þér erfiðara fyrir að slaka á á meðan þú situr, þar sem þú ættir alltaf að bíða með að sleppa þar til klósettið er mannlaust. Það kemur bæði þér og öðrum betur.
Strokufangi: Prump sem sleppur út á meðan þú situr á dollunni, annað hvort að pissa eða kúka. Prumpinu fylgir oftast mikil og skyndileg vandræðakennd. Ef strokufangi sleppur hjá þér skaltu láta sem ekkert hafi gerst. Ef þú ert vitni að strokufangaflótta hjá einhverjum öðrum, láttu eins og þú hafir ekki heyrt það. Engum líkar vel við strokufanga. Þeir eru óþægilegir fyrir alla sem að málinu koma. Að hlæja eða slá honum upp í grín gerir hlutina enn óþægilegri fyrir báða aðila.
Fangelsisflótti: Þegar þú ert að rembast og röð prumpa kemur út, svona eins og hleypt hafi verið af vélbyssu. Þetta er oft aukaverkun af niðurgangi eða þynnku. Ef þetta gerist, haltu ró þinni. Feldu þig inni á básnum þar til klósettið er mannlaust til að hlífa öllum við þeim vandræðalegheitum sem voru að gerast.
Skammargangan: Þegar þú ert að labba frá básnum og að vaskinum eða út af klósettinu eftir að hafa kastað lyktarsprengju. Þetta getur verið mjög óþægilegt augnablik ef einhver labbar beint í fangið á þér. Eins og með prumpin er best að láta sem lyktin sé ekki til staðar
en þetta augnablik er hægt að koma í veg fyrir með kurteisis-sturtinu.
Kurteisis-sturt: Sturtaðu niður um leið og kúkurinn lendir í vatninu. Þetta minnkar þann tíma sem kúkurinn hefur til að lyktarmenga klósettið. Þetta getur hjálpað þér að forðast skammargöngu.
Astaire: Lítt áberandi og kurteisislegt stapp í gólfið til að láta mögulega friðþjófa vita að þú ert inni á bás. Þetta tekur af allan vafa um það hvort básinn sé upptekinn. Ef þú heyrir Astaire, yfirgefðu klósettið strax svo kúkarinn geti sinnt sínum erindum í friði.
Feluhósti: Gervi hósti sem lætur fólk sem kemur inn á klósett vita að þú ert inni á bás. Feluhóstann er hægt að nota til að breiða yfir vatnsmelónu eða til að gera mögulegum friðþjófum viðvart. Mjög áhrifaríkt þegar notað með Astaire.
Vatnsmelóna: Kúkur sem dettur í vatnið með háværu skvett hljóði. Þetta er líka vandræðalegt tilvik.Ef þú hefur á tilfinningunni að vatnsmelóna sé í aðsigi skaltu dreifa athyglinni frá henni. Sjá feluhósta.
Havana eggjakaka: Niðurgangur sem veldur röð skvettuhljóða í klósettvatninu
strokufangar eru oft fylgifiskur hér. Prófaðu að nota feluhósta í bland við Astaire.
Friðþjófur: Einhver sem gerir sér ekki grein fyrir því að þú sért inni á básnum og reynir að opna hurðina. Þetta er eitt af þeim mest sláandi og viðkvæmu augnablikum sem geta orðið þegar þú kúkar í vinnunni. Ef þetta gerist skaltu vera inni á bás þar til friðþjófurinn er farinn. Þannig geturðu forðast allt óþægilegt augnsamband.
Tekið og þýtt af veraldarvefnum
þar sem þetta hefur líklega farið nokkra hringi í kringum heiminn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2008 | 09:45
Ég bíð bara eftir Barbie-pillunni...
Innan fárra ára ætti að koma á markað "undralyf" nokkurt og mun apinn bíða spenntur í röðinni eftir að fá uppáskrift fyrir það.
Forsaga lyfsins er sú að fyrir nokkrum árum tóku vísindamenn eftir því að fólk sem er ljósbrúnt allt árið um kring er í mun minni hættu á að fá húðkrabbamein heldur en fólk sem fer drekkur í sig sólina í tvær vikur á ári og eru eins og vofur þar á milli. Þeir drógu þá ályktun að mögulega væri hægt að minnka tíðni húðkrabbameins með því að þróa lyf sem eykur náttúrulegar varnir húðarinnar gegn útfjólubláum geislum, ergo: sólbrúnkulyf.
Eftir nokkurra ára hönnun, þróun og prófanir er útkoman "gervi hormón" (synthesized hormon, eins og er t.d. í getnaðarvarnarpillum) sem líkir eftir áhrifum UV geisla á húðina og örvar framleiðslu melaníns. Lyfið, sem kallast Melanotan, er yfirleitt gefið í gegnum staut sem settur er undir húðina. Mannlegar prófanir hafa nú farið fram í nokkur ár og aukaverkanirnar eru nokkuð sérstakar:
- Minni matarlyst
- Meiri kynhvöt
Seinni aukaverkunin var meira að segja það sterk að ákveðið var að þróa nýtt afbrigði af lyfinu, Melanotan II, sem verður markaðssett sem kynörvandi lyf. Það mun líklegast slá í gegn líka þar sem það virkar á heilann en ekki á blóðrásina líkt og Viagra og önnur stinningarlyf.
Hér eru smá upplýsingar um þetta skemmtilega lyf ef einhver skyldi hafa áhuga:
Fyrirtækið sem framleiðir Melanotan
Froskar, fyrir og eftir Melanotan
Hér sjást fyrir og eftir myndir af manneskjum, en hver vill jú ekki vera jafn töff og kúl og þessir tveir?
Einn ljósatími eykur hættu á krabbameini um 22% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2008 | 14:15
Mest pirrandi hlaupari í öllum heiminum!
Það er talað um að öskur gefi manni aukaorku og apinn hefur þess vegna verið fullur skilnings þegar kúluvarpararnir öskra í sama mund og þeir henda kúlunni. Þeir eru líka einir á vellinum þegar þeir henda henni. Þessi gaur.... hér hef ég ekki jafn mikinn skilning!!! En viðbjóðslega fyndið að horfa á!
http://www.maniacworld.com/most-annoying-runner-ever.html
Bloggar | Breytt 6.3.2008 kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2008 | 12:15
Aðskilnaðastefna Gyðinga beinist að fleirum en Palestínumönnum
New York Times birti á sunnudaginn grein undir yfirskriftinni How do you prove youre a Jew? eða Hvernig sannarðu að þú sért Gyðingur? Greinin fjallaði um þá klípu sem Gyðingar margir hverjir finna sig í þegar þeir ætla að nýta sér gyðinglegan rétt sinn til trúarathafna ýmsi konar, svo sem giftingar, svo sama dæmi sé tekið og í greininni sjálfri.
Þar er saga Sharonar sögð, ungri konu af Gyðingaættum langt aftur í aldir sem gekk á fund rabbínaráðsins í Ísrael með giftingu síns og unnusta síns, sem einnig var Gyðingur, í huga.
Gyðingar hafa stranga aðskilnaðarstefnu og samkvæmt reglum þeirra skal halda blóðinu hreinu. Því er það þannig að lögum samkvæmt má fólk ekki giftast í ísraelskum Gyðingdómi nema vera bæði Gyðingar. Og geta sannað það.
Langa-langafi Sharonar kom til Bandaríkjanna frá Úkraínu og breytti þar nafni sínu úr Ludmersky í Mersky, settist að í Minneapolis og ól börn sín upp í hefðbundnum Gyðingdóm. Afkomendur hans urðu bæði rabbínar og kaupmenn og sendu börn sín í sumarbúðir Zíonista og til Ísraels í sumardvöl. Allt í allt, ansi gyðingslegt líf.
Þetta var þó ekki nóg fyrir rabbínaráðið í Ísrael, né heldur persónuskilríki Sharonar þar sem stóð svart á hvítu að hún væri Gyðingur.
Rabbínaráðið í Ísrael, sem er hluti af dómskerfi þeirra, er skipað Ortodox rabbínum, og til að þeir samþykki fólk sem Gyðing þarf fólk að koma með meðmælabréf frá Orthodox rabbína sem hefur þekkt það alla ævi sem sönnun á Gyðingdóm sínum. Það er ekki nóg að bréfið sé frá Conservative rabbína, en það er sú stefna sem margir Gyðingar í Bandaríkjunum sem vildu halda í gömlu gildin hölluðust að. Ísraelsku rabbínarnir telja þá ekki nógu mikla Gyðinga til að geta fært sönnur á Gyðingdóm þegna Ísraelsríkis, en vegna þeirrar lagasetningar sem gerð var árið 1950 sem kallast Law of Return, mega allir Gyðingar setjast að í Ísraelsríki. Þeir mega líka ganga í Ísraelska herinn og berjast fyrir landið sitt, eins og Sharon þessi hafði einmitt gert. Það eru þó bara Orthodox Gyðingar sem eru taldir nógu miklir Gyðingar til að mega giftast. Því má svo bæta við að innan Ísraelsríkis eru þónokkrar deilur og ruglingur um hvað nákvæmlega felur í sér að vera Gyðingur. Er það þjóðerni? Er það trúarbrögð? Fólk, né Orthodox rabbínar, eru ekki sammála.
Þessi stefna Ísraelsra rabbínaráðsins er nokkuð sérstök fyrir þær sakir að þessi þjóð hefur í gegnum aldirnar lifað við hörmungar sem hafa hingað til sameinað þjóðina. Hún hefur hreykt sér af samheldni sinni, en því miður er hin hliðin á peningnum sú að samheldnin hefur breyst í þjóðernishroka. Þetta er ekkert sérstakt gyðinglegt fyrirbæri, heldur nokkuð sem maður getur séð hvar sem mannfólkið hefur stungið sér niður á jörðinni. Það er bara sérstakt að þjóð sem hefur verið undirokuð og niðurlægð í gegnum árin, skuli ekki hafa öðlast ákveðinn þroska í þjóðarvitund sína. Að ekki skuli vera hægt að læra af sögunni og reyna að rækta samkennd frekar en að ýta undir sundrung og fjandskap.
Það sér hver maður að á meðan þjóðernishrokinn er það mikill að þeir geta ekki einu sinni samþykkt sína eigin sem jafningja, þá munu þeir ekki geta samþykkt nágranna sína sem jafningja. Því er það algjör fásinna að halda því fram að Ísraelsríki fari fram með friði gagnvart þeim þjóðum sem sýna þeim frið. Ég ætla mér ekki að fara í þá sálma að telja upp þau hroðaverk sem Ísraelsríki hefur ynnt af hendi, það er ekki þörf á því þegar hægt er að líta í innviði landsins sjálfs til að sjá að þjóðin er ekki komin lengra á þroskabrautinni að svo, að líta niður á hvert annað fyrir að hafa annað forskeyti fyrir framan Gyðingdóminn en viðkomandi hefur sjálfur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2008 | 10:26
"Verknaðurinn hinn sami burtséð frá aðferð"
Í Morgunblaðinu í morgun var lítil frétt um sakfellingu í DC++ málinu svokallaða. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota hjá RSL, segir málið hafa fordæmisgildi í málum varðandi brot á höfundarlögum, en þetta er í fyrsta skipti sem sakfellt er fyrir brot af þessu tagi framin á netinu.
Ekki er sérstakt hlutdeildarákvæði í höfundarlögum en dómurinn beitir ákvæðum hegningarlaga um hlutdeild með lögjöfnun, en þetta er í fyrsta skipti sem reynir á þetta varðandi höfundarlögin. Helgi Magnús segir ljóst að verknaðurinn að halda úti jafningjaneti og birta þar höfundarvarið efni sé hinn sami burtséð frá því hvaða aðferðum sé beitt.
Þetta er allt gott og vel. Ég velti því samt fyrir mér af hverju hægt er að sjá verknaðinn aðskilinn frá aðferðum þegar um efnahagsbrot er að ræða en ekki þegar um kynferðisbrot er að ræða. Í núgildandi lögum um naugðanir er ákvæðið svohljóðandi í dag:
"Hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans."
194 gr. almennra hegningarlaga
Þetta ákvæði er vissulega illa orðað og oft talað um að þetta sé of loðið til að dómarar geti dæmt menn út frá því nema áverkar sjáist eða eitthvað þvíumlíkt sem sannar misbeitingu valds eða ofbeldi. Ég get hins vegar ekki séð að hendur dómara séu bundnar af þessu ákvæði þegar á það er litið í heild sinni. Talað er um að byrlun lyfja teljist svipting sjálfræðis, það er tekið fram að það teljist einnig nauðgun að notfæra sér ástand þar sem fórnarlamb getur ekki spornað við verknaðinum, sem ætti þá að tryggja það að hægt sé að dæma manneskju sem nauðgar áfengisdauðri manneskju fyrir nauðgun en ekki fyrir misneytingu.
Þessi dómur í DC++ málinu hlýtur því að vera fordæmisgefandi fyrir fleiri brot en bara efnahagsbrot. Verði hann ekki fordæmisgefandi fyrir kynferðisbrot þarf að skoða dómarana sjálfa en ekki dómana, því hér er dómur sem gefur skýr skilaboð: "Það er verknaðurinn. Ekki aðferðin."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2008 | 21:49
Úffff...
Skjótt skipast veður í lofti.
Í staðinn fyrir vorfílinginn sem mér persónulega finnst við Íslendingar hreinlega eiga rétt á eftir þennan ljóta snjóþunga vetur er aftur kominn snjór, og í staðinn fyrir fína, fína hlaupaprógrammið mitt sem hófst á þriðjudaginn, hef ég lagst í rúmið með hálsbóglu, hita og höfuðverk. Apinn hefur ekki verið svona veikur í átta ár, en getur svosem sjálfum sér um kennt að liggja ennþá. Hann kann nefnilega ekki að vera veikur, er vanur því að fá bara hálfsdagspestir sem hann kvartar ógurlega undan og vorkennir sér alveg í botn í einn dag, og svo er allt búið. Nú hef ég hagað mér líkt og um þannig veikindi sé að ræða og það er ekki fyrr en í dag, á fjórða degi, sem ég samþykki það að það þýðir víst ekkert annað en að halda kyrru fyrir undir sæng en ekki vera á einhverju brölti út um alla borg, byrðja bara hitalækkandi og horfi á Rome, Animal Planet og einhverjar heilalausar, mellugrauts-myndir.
Já... gaman að þessu. Vonandi fer að slá á þetta svo ég geti haldið áfram með lífið og hlaupaprógrammið...
Bloggar | Breytt 6.3.2008 kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2008 | 12:59
Er að koma vor?
Í dag er 18. febrúar. Daginn er byrjað að lengja, og það er vor í lofti.
Þið megið segja það sem þið viljið um að það sé ennþá hávetur, og vissulega verð ég að viðurkenna að þetta er líklega svolítið fært í stílinn hjá mér. Og þó. Það eru allavega fyrirheit um vor í lofti. Og það er betra heldur en ekki neitt!
Þegar ég rölti út af líkamsræktarstöðinni í morgun var ég meira að segja bara á peysunni og það var ekkert kalt! Leiðin að bílnum var reyndar ekki löng, og ég er ekki frá því að það sé strax orðið aðeins kaldara heldur en í morgun, en mér er alveg sama. Þetta lyftir andanum og gefur manni smá hlýju í brjóstið eftir allan þennan endemis leiðindasnjó sem ætlar algerlega að drepa mig lifandi.
Á morgun byrja ég á nýju hlaupaprógrammi. Ég hef nefnilega skráð mig í Mývatnsmaraþonið og ætla þar að hlaupa 21 kílómeter. Því er eins gott að standa sig svo maður springi ekki einhvers staðar á hálendinu og finnist svo þegar snjóa leysir árið 2015 þegar einhverjir útlendingar hafa álpast aðeins of langt frá jarðböðunum..
Prógrammið er 10 vikna prógramm og gert er ráð fyrir að maður hlaupi þrisvar í viku, speedwork á þriðjudögum, tempohlaup á miðvikudögum og langt hlaup á sunnudögum. Þar fyrir utan á maður að crosstraina, synda eða hlaupa leggja þeir til, 2-3 í viku, en ég ætla mér nú bara að lyfta eins og tvisvar í viku og sjá til hvort maður nái ekki eins og einni sundferð í viku. Mér líkar ekki það vel við almenningssundlaugar að ég treysti mér til að skuldbinda mig til að dýfa tánum ofan í þær 2-3 í viku.
Þetta verður spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)